Byggðamynstur og byggðaþróun
Garðar voru kirkjujörð og höfðu í kringum sig umfangsmikla hjáleigubyggð á 15. til 18. öld.
Hjáleigubyggð líkt og að Görðum var mest áberandi á Suðvesturlandi og á Snæfellsnesi. Hvergi hafa þó minjar varðveist í jafn ríkum mæli og í Garðahverfi, því víðast hvar hafa bæir byggst upp við verstöðvarnar og uppbygging þeirra og hafnarmannvirkja meðfram ströndinni hafa orðið þess valdandi að fáar minjar eru enn varðveittar.
Í dag er enn íbúðarbyggð í Garðahverfi. Það vekur athygli að fimm af sex skráðum lögbýlum árið 1703 eru enn í byggð árið 2010 en einungis ein hjáleiga, Miðengi. Hin býlin fara flest í eyði um eða fyrir miðja tuttugustu öldina. Þá hafa þrjú nýbýli verið reist í Garðahverfi sem enn eru í byggð; Grund, byggt 1950, Grænigarður, 1955 og Breiðholt 1962. Eins og áður hefur verið getið hafa bæjarstæði tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og byggðamynstrið því að mestu haldist óbreytt.
Um 1800 var því sem næst allt land Garðasóknar í eigu kirkjunnar eða krúnunnar. Garðar voru svokallað gæðabrauð sem nutu góðs af nálægð sinni við Bessastaði og var Garðasókn ellefta tekjuhæsta sóknin á landinu af 179 sóknum árið 1737.
Þrátt fyrir þá miklu fækkun fólks sem varð á Íslandi á 18. öld þá fjölgaði í Garðahverfi um þriðjung á öldinni. Það endurspeglar þá búsetuþróun sem þá átti sér stað á Íslandi þar sem fólk flykktist úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Þannig hélst fjöldi lögbýla og hjáleigna stöðugur en tómthúsum fjölgaði mikið.
Hjáleigubæir við Garða voru flestir smáir og jafnvel mörg heimili á hverjum þeirra. Fjöldi býla hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og bæjarstæðin lítið breyst. Hins vegar tók fjöldi bústaða miklum breytingum því ábúendur jarða leyfðu stundum byggingu þurrabúða í landi sínu en
þessir íbúar urðu að treysta algjörlega á sjávarfang eða vinnu fyrir aðra.
Byggðin var nokkuð þétt og vel tengd saman því götur voru á milli allra bæja og allir vegir lágu til Garðalindar þangað sem íbúar sóttu vatn til fjóss og bæjar. Garðalindin var eina lindin sem aldrei þraut. Íbúar vörðust sífellt ágangi sjávar og voru meðal annars byggðir sjávarvarnargarðar, en sums
staðar, til dæmis að Bakka hefur þurft að færa bæinn þrisvar sinnum frá sjónum svo vitað sé.
Á Álftanesi, þ.m.t. Garðahverfi, voru karlar fleiri en konur en annars staðar á Íslandi voru konur um fimmtungi fleiri. Ástæðan gæti legið í mikilli sjósókn en hún var aðallega stunduð af karlmönnum. Sérstaða Álftaness var ennfremur fólgin í yngri aldurssamsetningu íbúa en annars staðar á
landinu. Hlutfall barna 10 ára og yngri var mun hærra en landsmeðaltalið. Það bendir til þess að sjávaraflinn hafi ef til vill dregið úr sulti og harðindum og lífslíkur ungbarna því verið meiri.
Segja má að blómatími Álftaness hafi verið á 19. öld. Íbúum fjölgaði þar meira en annars staðar á landinu og útgerð og verslun blómgaðist. Þar sem möguleikar voru á útræði byggðust upp litlir byggðarkjarnar og voru t.d. sex býli í kringum Dysjar og 32 manns skráðir þar til heimilis. Í manntalinu 1845 eru flestir heimilisbændur skráðir bændur með grasnytjar eða fiskarar og ljóst að allmargir stunduðu hvoru tveggja.
Íbúum fækkaði svo aftur eftir aldamótin 1900 í kjölfar sóknar breskra togara á miðin og hruns í fiskveiðum. Þilskipaútgerðin og síðar togara útgerðin leiddi síðan til fólksflutninga til aðalútgerðarstaðanna og á skömmum tíma fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar úr 374 í 1351. Margt af því fólki sem þangað flutti var þurrabúðafólk úr Garðahverfi og Bessastaðahreppi.
Atvinna og hlunnindi
Að Görðum var róið úr heimavör árið um kring en það kallast heimræði. Vegna þessa kann að hafa verið auðveldara að manna báta en á verstöðvum. Garðahverfi var ekki sjávarpláss í hefðbundnum skilningi heldur fremur viðleguver. Sjómenn fengu inni á lögbýlum og hjáleigum og greiddu fyrir vissa þjónustu. Þó virðist sem þar hafi eitt útver eða verstöð verið á 17. öld við svokallaða Óskarbúð en þaðan rérirösklega tugur báta þegar mest var.
Að auki virðist sem íbúar hafi lifað jöfnum höndum af sjósókn og landbúnaði, því einungis 2 bæir af 31 lifðu þá eingöngu af búskap. Við sjósóknina var einkum notast við tvíæringa og hefur lítil notkun stærri báta verið útskýrð með því að útvegsmenn hafi viljað dreifa áhættunni og forðast að fá tóman feræring heim. Skúli Magnússon landfógeti skýrir þetta þó fremur þannig að menn hafi viljað vera eigin húsbændur og engum öðrum háðir. Þá er fátækt einnig nefnd sem orsakavaldur og getuleysi til að smíða og halda við stærri bátum.
Prestssetrið og frumkvöðlastarf
Garðar gáfu mikið af sér til lands og sjávar og komust margir prestar sem þar gegndu embætti í góð efni. Þeir höfðu í hendi sér hversu mörg býli voru byggð í landi jarðarinnar og hversu miklir skattar og kvaðir voru innheimtar til hennar.
Prestarnir voru oft á tíðum frumkvöðlar á ýmsum sviðum. Má þar nefna séra Guðlaug Þorgeirsson sem gegndi prestsembætti að Görðum 1746-1781. Helsta ástríða Guðlaugs á embættisárum hans var matjurtarækt en talið er að hann hafi fyrstur manna á Íslandi náð almennilegum tökum á kartöfluræktinni. Guðlaugur beitti sér fyrir því að sóknarbörn hans tækju upp matjurtarækt og árið 1778 hlaut hann viðurkenningu frá konungi fyrir framlag sitt til garðræktar. Áhrif hans eru óumdeilanleg því árið 1770 voru 170 matjurtagarðar í Gullbringusýslu en sú sýsla hafði þá mesta kartöflurækt og garðyrkju. Átta árum eftir að séra Guðlaugur lét af embætti voru 12 garðar á bæjunum 11 í kringum Garða, en 1799 var enginn garður á bæjunum.
Eftirmaður séra Guðlaugs, séra Markús Magntússon sem gegndi embætti 1780 - 1825 var einnig hvatamaður garðræktar og hélt henni vel við eftir að Guðlaugur lét af störfum. Hann var einnig talinn besti búhöldur sunnan lands. Hann lét hlaða grjótgarð um 1800 sem lá í norður frá Balatjörn allt að Skógtjörn og girti alla Garðatorfuna af með hjáleigutúnunum. Þá hafa víða verið reistir sjóvarnargarðar vegna sífells ágangs sjávar en nokkrir þeirra eru enn vel sýnilegir.
Fyrsti heimavistarskólinn
Árið 1791 var skóli stofnaður að Hausastöðum sem Garðar lögðu fram endurgjaldslaust úr sínu landi. Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi sérstaklega ætlaður alþýðubörnum. Markmið hans var að veita fátækustu börnum Kjalarnesþings kristilegt uppeldi, húsnæði, mat og föt. Þau áttu að læra lestur og guðsorð en einnig garðrækt. Þá var einnig tekið fram að þau ættu að fá ferskt grænmeti. Þarna mætti segja að áhrif séra Guðlaugs hafi enn gætt.
Vertíðir mótuðust af fiskgengd á slóðir. Vetrarvertíðin var mikilvægust og aflabrögðin mest. Hún hófst um 14. mars og stóð til 11. maí. Vorvertíðin tók þá strax við til hádegis á Jónsmessu. Yfir sumarið var jafnan lítið róið enda oftast lítinn afla að hafa og næg störf við búskapinn. Haustvertíðin byrjaði á Mikjálsmessu hinn 29. september, stóð fram á Þorláksmessu og var eingöngu stunduð af heimamönnum. Lokadagar vertíðanna voru hátíðardagar þar sem boðið var upp á kaffi, lummur, pönnukökur, brennivín og kjötsúpu. Sagt er að Garðhverfingar hafi þótt harðir í sjósókn sinni og
síður látið veður hamla sér og róið fyrr en margir aðrir.
Hrognkelsaveiðar voru stundaðar frá Garðahverfi en svæðið var eitt fengsælasta á Íslandi til slíkra veiða. Hrognkelsi voru mikilvæg til beita og fundust í nýtanlegu magni frá mars og fram í júlí. Grásleppuhrogn voru tínd í höndunum á stórstraumsfjöru þar sem þau voru fest við stóra steina en hrognkelsi voru einnig veidd með höndum eða sting. Sölvatekja voru mikilvæg hlunnindi en það fékkst næstum jafnhátt verði fyrir vætt (40kg) af sölvum eins og einum hlut af fullfermdu tveggja manna fari. Söl voru tínd og þurrkuð til sölu, en voru einnig notuð til að drýgja hey og komu jafnvel í staðinn fyrir hey. Vísbending um mikilvægi þessara hlunninda eru svokallaðir Péturssteinar við Hausastaðagranda, en þeir eru taldir vera jarðamerki milli prestssetursins og nágrannajarða til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni. Sölvatekja var mikil á Hausastaðagranda, en hann náði um kílómetra út í fjörð og kom aðeins upp úr á fjöru.
Byggð og samfélag 1500-1800
Hér má lesa ritgerðir nemenda í HÍ sem unnu nemendaverkefni um byggð og samfélag frá 1500 - 1800 í Garðahverfinu. Þar er m.a. áhugaverð saga um kartöflurækt í Garðahverfi og að Bessastöðum í kringum 1758 - 1760. Þar voru fyrstu kartöflurnar teknar upp á Íslandi, fyrst á Bessastöðum og svo að Görðum.
Að neðan eru viðhengi með ritgerðum sem nemendur í áfanganum Byggð og samfélag á Íslandi 1500 - 1800 unnu um Garðahverfi, undir leiðsögn doktors Hrefnu Róbertsdóttur sagnfræðings.
Saman veita verkefnin breiða yfirsýn yfir 18 aldar samfélag Garðahverfis þar sem hjáleigubyggð var umfangsmikil en helstu einkenni hennar voru víðtæk kvaðakerfi þar sem ábúendur unnu ákveðin verk fyrir landeiganda. Að Görðum eru merkar minjar um fyrstu kálgarðana í kringum 1759, en garðamenning Íslendinga er sprottin upp úr kálgörðunum.
Viðfangsefni ritgerðanna voru:
-
Af Guðsmönnum og grænum fingrum. Staða og hlutverk Garðapresta á 18. öld.
-
Höfundur Fanney H. Kristjánsdóttir
-
-
-
Höfundur Narfi Jónsson
-
-
Mannfjöldi og þéttbýlismyndun.
-
Höfundur Sigurður Trausti Traustason
-
-
Fjölskyldur af nesinu: Fjölskyldusögu- og mannfjöldarannsókn.
-
Höfundur Alma Sigrún Sigurgeirsdóttir
-
-
Verslunarhættir Garðahverfisbænda.
-
Höfundur Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir
-
Nemendur kynntu helstu niðurstöður verkefna sinna á opnum fundi í félagsheimilinu Garðaholti, þar sem mætti áhugafólk um sögu og samfélag í Garðahverfi. Nemendur lögðu einnig fram tillögur að því hvernig mætti draga sögu svæðisins fram og gera henni skil í skipulagsvinnunni fyrir deiliskipulag Garðahverfis. Það var mikill fengur að þessarri samvinnu Garðahverfis og háskólanemanna og mæltist fyrirkomulagið vel fyrir.
Hér má fræðast um ýmsa þætt í sögu Garðahverfisins.